• Nemendaþjónusta ME

Er frestunaráráttan að fara með þig? 8 leiðir að skilvirkari tímastjórnun og skipulagi.

Updated: Mar 20, 2020

Nú þegar spönnin er að klárast og ný fer að taka við er kjörið tækifæri til að taka stöðuna í náminu. Hvað hefur verið ganga vel hjá þér og hvað brösulega? Hvaða ástæður liggja þar að baki? Hvaða leiðir geturðu farið - og hvað geturðu gert til að bæta stöðuna og virknina í náminu? Ertu tilbúin/nn til að leggja á þig það sem þarf o.s.frv? Gæti skilvirkari tímastjórnun verið ein þessara leiða? Ef svo er... haltu áfram að lesa!Hér að neðan má finna sjö leiðir sem nýst gætu þeim sem vilja bæta skipulagið sitt og tileinka sér árangursríkari tímastjórnun.1. Settu þér markmið!

Í samræmi við sjálfsþekkinguna þína, langanir og þrár - settu þér markmið með náminu! Passaðu að hafa þau skýr, mælanleg, athafnamiðuð, raunhæf og tímasett. Markmiðin þín hjálpa þér við að sjá tilganginn með "daglega strögglinu". Segjum sem svo að markmiðið þitt sé að útskrifast með stúdentspróf af listnámsbraut - hverjar yrðu þá vörðurnar á leiðinni að markmiðinu? Það er að segja, hvernig veistu að þér miðar áfram og þú ert á réttri leið? Hvað þarftu að gera (hve langt þarftu að ganga, ef við hugsum þetta sem fjallagöngu upp á toppinn) daglega, vikulega, mánarlega o.s.frv. - til að ná að markinu á tilsettum tíma? Hvernig geturðu undirbúið þig sem best fyrir göngu hvers dags? Ef þú ert með þessa hluti á hreinu þá mun það að öllum líkindum hjálpa til með sjálfsaga og hvatningu.


Það að sjá tilganginn með náminu er afskaplega mikilvægt. Þér finnst áfangarnir sem þú ert í eflaust ekki allir jafn skemmtilegir og áhugaverðir. En ef markmiðið þitt og vörðurnar sem þú hefur merkt þér á leiðinni þangað eru vel ígrundaðar, þá ættu allir áfangarnir sem þú velur þér og skráir þig í, að gilda til stúdentsprófs. Þar af leiðandi hafa þeir allir tilgang. Þú þarft alltaf að ljúka við ákveðin kjarnafög (og brautarkjarnafög) til útskrifar, og þú þarft amk 206 einingar til brautskráningar... svo hver og ein eining gildir í stóra samhenginu!


Hvernig veistu að þú ert á réttri leið að markmiðinu?

2. Skráðu niður hjá þér og skipuleggðu daginn fyrirfram

Hugurinn þinn, hæfni þín til að hugsa, plana og ákveða er besta tækið sem þú hefur til að auka afköst þín og sigrast á frestunaráráttu. Komdu þér upp skipulagi í dagbók, tölvu eða síma, á því formi sem þér hentar, þar sem þú merkir inn öll verkefnaskil. Það sem er svo enn áhrifaríkara - brjóttu niður stærri verkefni í smærri einingar og settu einnig inn í skipulagið hvenær þú ætlar að BYRJA á verkefnum/ákveðnum þáttum þeirra. Þegar þú fyllir inn í skipulagið þitt, skrifaðu þá líka inn alla fasta vikulega punkta eins og tómstundir, ræktin, fundir o.fl sem og ef þú veist af einhverjum viðburðum framundan eins og læknisheimsókn, ferðalögum og öðru í þeim dúr. Þetta kann að hljóma tímafrekt og "óþarfi" en Brian Tracy (2018) segir að hver mínúta sem þú eyðir í áætlanagerð sparar allt að tíu mínútur í framkvæmd. Samkvæmt því, tekur þig c.a. 10-12 mínútur að gera áætlun fyrir daginn, en sú fjárfesting mun spara þér allt að tvo klukkutíma af sóuðum og/eða dreifðum tíma yfir daginn.


Notaðu daglista (to-do lista) til að vinna eftir. Þegar eitthvað nýtt kemur upp á, bættu því við áður en þú hefst handa við vinnuna. Útbúðu listann kvöldið áður eða um morguninn. Strikaðu yfir það sem þú hefur klárað. Færðu allt sem þú náðir ekki að klára yfir á lista næsta dags og bættu svo við nýjum atriðum sem þú þarf að gera næsta dag. Mjög einfalt skipulag en getur verið afar árangursríkt.


Lífið er nú svo yfirleitt þannig að það gengur ekki alltaf allt 100% upp hjá okkur. Þess vegna er nauðsynlegt að skipuleggja vikuna þannig að þú eigir alltaf smá tíma upp á að hlaupa ef skipulagið hefur ekki gengið upp eins og til stóð, til að vinna upp verkefni og annað slíkt.


Notaðu dagbók, dagatöl... skráðu niður!

3. Forgangsraðaðu!

Mikilvægur þáttur í að koma sér upp skipulagi sem virkar er að forgangsraða. Stundum er það þannig að á álagspunktum þá getum við ekki alltaf gert allt eins vel og við getum og þá skiptir máli að geta forgangsraðað. Þá getur til dæmis skipt miklu máli að þú gerir þér grein fyrir umfangi verkefna og hversu mikið þau gilda af námsmati tiltekins áfanga. Þegar það er mikið álag þá getur einnig verið gott að fókusa frekar á afköst og skilvirkni frekar en yfirburði og einhvers konar fullkomnun.


80/20 regla Vilfredo Pareto er ein af skilvirkustu "reglunum" í tímastjórnun. Hún byggir á því að 20% af athöfnum þínum útskýri 80% af árangrinum þínum. Þetta þýðir í grunninn að ef þú ert með lista yfir 10 atriði sem þarf að gera, munu tvö þeirra reynast vera mikið meira virði en hin átta samanlögð. Passaðu þig á því að ef þú frestar einhverju - að þú sért ekki að fresta þeim verkefnum sem hafa mesta virðið.


Eftirfarandi punktar Steven Covey o.fl. (1999) gætu mögulega hjálpað þér við forgangsröðun.


Skiptu verkefnunum í fjóra flokka:


1. Mikilvæg verkefni og aðkallandi! Verkefnin sem bara verður að klára. Byrjaðu á þeim!

2. Mikilvæg verkefni en EKKI aðkallandi! Því næst, skoðaðu verkefni sem virðast mikilvæg við fyrstu sín en liggur ekki jafn mikið á. Taktu frá tíma til að vinna þau.

3. Aðkallandi verkefni en EKKI mikilvæg. Sum verkefni eru þannig að þau eru fyrirferðarmikil en þegar þau klárast skipta þau ekki endilega miklu máli í stóra samhenginu eða til lengri tíma.

4. Hvorki mikilvæg né aðkallandi verkefni. Verkefni og hlutir sem þvælast oft fyrir þér því þau eru á listanum þínum og hafa mikið fyrir því að láta hann líta út fyrir að við séum enn uppteknari en við erum í raun og veru. Þetta eru oft verkefnin sem best er að fresta.


Best er að hefjast handa við verkefni á meðan þau eru mikilvæg en ekki aðkallandi (b). Sem sé ekki bíða fram á síðustu stundu!


Ekki leyfa þér heldur að bíða of lengi með að vinna verkefni vegna þess að þau eru svo "lítil", "auðveld" eða "taka stuttan tíma" - ef þau eru á annan borð mikilvæg! Við þurfum ekkert alltaf að hafa að minnsta kosti klukkutíma ramma til að byrja og klára verkefni. Það er oft þannig að það er hægt að klára af litla hluti á milli annarra stærri verkefna.


Segðu nei!

Annar mikilvægur punktur hér er líka að læra að segja nei þegar það getur átt við. Þú ert yfirmaðurinn í þínu lífi. Ef þú þarft að segja nei við einhverju til að komast yfir annað sem skiptir meira máli og er meira aðkallandi - þá ekki hika við það. Að þurfa að segja nei þýðir ekki endilega að þú sért ekki nógu skilvirkur - þvert á móti.


Hvað er mikilvægast? Forgangsraðaðu!

4. Lestu þér til um frestun og lærðu að þekkja hana

Frestunarárátta í grunninn hefur tvö samþætt einkenni: Annars vegar sterka tilhneigingu til að forðast það að vinna eða takast á við verkefni, og hins vegar sjálfsblekkingu. Ég segi sjálfsblekkingu - vegna þess að þá ert þú að telja þér trú um að það sé í lagi að bíða með verkefnið eða að þú sért ekki "nógu vel upplagður/upplögð" og það sé betra að byrja bara á því "á morgun". Auðvitað verður svo svipað upp á teningnum "á morgun".


Frestunarárátta er talin vera lærð hegðun eða vani, og í grunninn innblásin af erfiðum tilfinningum eins og ótta, kvíða og leiða. Þær tilfinningar eru svo samofnar neikvæðni sem síðan vinnur gegn sjálfstrausti, trú á eigin getu og ánægju. Yfirleitt eru þessar erfiðu tilfinningar svo tengdar óttanum við að gera mistök og uppfylla hvorki eigin væntingar, né annarra.


Ljósi punkturinn er að það er leið út úr vandanum. Allt sem þú venur þig á, getur þú vanið þig af! Þú þarft bara að vera tilbúin/nn til að leggja þig fram af öllum mætti við að ná árangri. Það getur aftur á móti tekið tíma að temja sér nýjan vana. Vertu því tilbúinn að þurfa að standa upp og reyna aftur, með bjartsýnina að vopni. Enginn er fullkominn. Vertu raunsæ/r og forðastu alhæfingar eins og "ég verð að", "ég á að" o.s.frv. Tímastjórnun og skipulag er lykilatriði í að taka fyrstu skrefin í átt frá frestunaráráttunni.

Vertu líka dugleg/ur að einblína á ávinninginn með verkefninu og tilfinninguna sem fylgir eftir að verkið hefur verið klárað, í stað þess að hugsa um erfiðleikana eða hugsanleg mistök sem þú gætir gert í vinnuferlinu.


Allt sem þú venur þig á, geturðu vanið þig af.

5. Lærðu að þekkja tímaþjófa og sveigja frá þeim

Eins fram hefur komið eru góð tímastjórnun, skipulag og forgangsröðun helstu óvinir frestunaráráttu, og auk þeirra... agi! Tæknin getur oft reynst okkur erfið hvaða aga varðar. Tæknin getur nefnilega bæði verið þinn besti vinur og skæðasti óvinur. Bæði yfirmaður þinn og þjónn. Það er nauðsynlegt fyrir þig að ná stjórn á sambandi þínu við tæknina því hún er einn helsti tímaþjófur nútímasamfélags. Tæknin á að vera til þess fallin að auðvelda þér lífið en ekki flækja það og auka á streitu. Notaðu hana frekar í að minna þig á mikilvæga hluti í stað þess að missa sjónar á þeim innan um hafsjó af afþreyingu og efni sem einmitt er hannað til að við missum sjónar á tímanum.


Skjáirnir í lífi okkar auðvelda oft frestunaráráttunni að valda usla og gera okkur erfitt fyrir. Því við erum jú með endalausa afþreyingu í buxnavasanum. Ef þú átt í erfiðleikum með skjá- og símanotkun, temdu þér til dæmis að leggja frá þér símann á hljóðlausri stillingu (og án titrings) þegar þú ert að vinna verkefni. Nýttu þér hann frekar sem umbun eftir XX langar lestrar- og vinnupásur.


Áður en þú hefst handa við verkefnavinnu, prófaðu að hreinsa aðeins til á skjánum þínum eins og þú myndir gera á skrifborðinu þínu. Lokaðu óþarfa heimasíðum, flipum og forritum og settu þig í startholurnar. Notaðu hljóðeinangrandi heyrnatól, mögulega alpha waves (sjá á youtube) eða eyrnatappa ef þú átt erfitt með að einbeita þér vegna umhverfishljóða og annarrar truflunar.


Kíktu á daglistann þinn og verkefnin sem eru framundan og ákveddu fyrirfram hvað þú ætlar að gera. Ákveddu hversu langan tíma þú ætlar að sitja við lestur/verkefnavinnu. Hér gætirðu t.d. nýtt 10 mínútna regluna ef einbeitingin er af skornum skammti. Ekki bíða eftir að þú verðir upplögð/upplagður/upplagt til að byrja að vinna eitthvað verkefni, það bíður frestunaráráttuna velkomna í heimasókn. Sestu niður, ákveddu að byrja að vinna í 10 mínútur, stilltu tímann og leggðu símann frá þér. Að 10 mínútum liðnum tekurðu stöðuna. Þú getur ákveðið að taka aðrar 10 mínútur eða tekið þér 5 mínútna pásu áður en þú hefur næstu lotu. Notaðu umbunarkerfi. Verðlaunaðu þig þegar þú hefur klárað ákveðið margar lotur.


Tímaþjófurinn í vasanum.

6. Sjálfsrýni og sjálfsþekking

Það er mikilvægt að þekkja vel inn á sig og vera meðvituð/aður/að um hvað tíminn þinn er raunverulega að fara í. Aðrar spurningar sem gott er að hafa í huga er til dæmis hvar og hvernig þú vinnur best og hvenær tíma dagsins áttu auðveldast með að halda einbeitingu? Hafðu þessar spurningar líka á bakvið eyrað við dagskipulagið þitt og forgangsröðun verkefna, þannig að þú sért að vinna í mikilvægustu verkefnunum þegar þú ert upp á þitt besta.


Eitt af því árangursríkasta sem þú getur gert er að velta eftirfarandi fyrir þér: Hvað er það raunverulega sem er að aftra þér frá því að ná árangri í verkefninu/faginu/náminu? Í nánast hverju verkefni, leynist ákveðinn þáttur sem stjórar hraðanum á lausn verkefnis eða því hversu hratt þú nærð einhverju markmiði. Einblíndu á þann þátt. Þetta gæti verið óljós tilgangur, þig vanti hvata, einhvers konar aðstoð sem þú þarft að biðja um, úrræði sem þú þarft, o.s.frv. Við höfum öll styrk- og veikleika, svo skipulegðu þig í takt við þá. Það skiptir ekki öllu máli hverjir veikleikarnir eru, það sem skiptir mestu máli er að þú sért meðvituð/aður um þá og gerir ráðstafanir!


Þú ert sérfræðingurinn í þínu lífi. Hvað er það sem aftrar þig í að ná markmiðum þínum?

7. Finndu jafnvægið. Mataræði, svefn og hreyfing eru grundvallarþættir.

Í kapphlaupinu við tímann og í amstri dagsins, ekki gleyma mikilvægi góðs og fjölbreytts mataræðis, góðs svefns og vellíðaninni sem regluleg hreyfing færir. Þú þarft í senn orku og veru nægilega hvíld til að geta sinnt daglegum verkefnum. Til að vera upp á þitt besta þá þarftu að finna jafnvægi á milli allra þessara þátta. Þess fyrir utan gegnum við öll mörgum hlutverkum. Þú ert ekki bara námsmaður - þú ert líka til dæmis barn foreldra þinna, systkini, vinur, barnabarn o.fl. Þú þarft líka tíma til að sinna áhugamálunum og því sem gefur þér auka kraft. Hvað skiptir þig mestu máli? Passaðu að eiga líka stundum lausan tíma í allt og ekkert. Góð tímastjórnun og skipulag felst líka í að skapa stundir til að njóta lífsins.


Finndu jafnvægið...

8. Ekki gleyma hugarfarinu!

Þróaðu með þér jákvæðan hugsunarhátt. Talaðu um hlutina sem þú vilt í stað þeirra sem þú vilt ekki. Langtímarannsókn Martin Seligman (2006) sýndi meðal annars fram á að bjartsýnisfólk virðist vera afkastameira á nánast öllum sviðum lífsins. Þetta fólk hefur fjóra sérstaka hegðunareiginleika sem allir eru lærðir í gegnum æfingu og endurtekningu.


Bjartsýnisfólk:

  • leitar að því góða í öllum aðstæðum.

  • leitar að mikilvægri lexíu í öllum erfiðleikum og vandamálum.

  • er alltaf að leita að lausninni við hverju vandamáli, í stað þess að kenna öðrum um eða kvarta.

  • hugsar og talar reglulega og markvisst um markmiðin sín.

80/20 regluna má líka nota á höft - það sem afrar okkur. Það sem átt er við með því er að 80% af höftunum, eða þeim þáttum sem halda þér frá því að ná markmiðum þínum, koma innan frá. Hvort sem um ræðir kosti, færni, hæfni og getu - eða viðhorf, ávana og aga. Hugarfarið skiptir höfuðmáli. Þú getur þetta! Tíminn er núna.


80% af því sem aftrar þér frá því að ná markmiðinu þínu kemur innan frá.

Þegar þú sérð markmiðin þín og hugmyndir stöðugt fyrir þér og talar við þig á jákvæðan hátt, mun þér finnast þú vera einbeittari og orkumeiri. Þér finnst þú vera sjálfsöruggari og meira skapandi. Þú upplifir eins og þú hafir meiri stjórn og innri kraf. Og því meiri jákvæðni og hvatningu sem þú upplifir, því viljugri verður þú til að byrja og því ákveðnari verðurðu í að halda áfram. - Brian Tracy


Textinn byggir m.a. á eftirfarandi ritum:


Covey, S. R., Merrill, R. og Merrill, R. R. (1999). First things first: to live, to love, to learn, to leave a legacy. New York: Simon and Schuster.


Marteinn Steinar Jónsson, Jóhann Ingi Gunnarsson og Sæmundur Hafsteinsson. (2008). Þú getur... Reykjavík: Hagkaup.

Seligman, M. E. P. (2006). Learned optimism: How to change your mind and your life. New York: Vintage Books.


Tracy, B. (2018). Borðaðu froskinn! 21 frábær leið til að hætta að fresta og afkasta meiru á styttri tíma. Reykjavík: Bergmál.


141 views0 comments

Nemendaþjónusta ME

Heimilisfang

Hafðu samband

Samfélagsmiðlar

Menntaskólinn á Egilsstöðum

Tjarnarbraut 25

700 Egilsstöðum, Ísland

www.me.is

©2018 by Nemendaþjónusta ME. Proudly created with Wix.com